„Mér finnst dapurlegt að horfa upp á það hvernig verjendur hafa hagað sér. Þeir hafa sett á svið hálfgert leikrit síðustu daga,“ segir Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara í Al Thani-málinu. Aðalmeðferð í málinu var frestað í morgun um ótilgreindan tíma eftir að lögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall, verjendur þeirra Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, sögðu sig frá málinu. Sakborningar hafa fengið nýja verjendur sem þurfa að setja sig inn í málið.

Björn sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar þetta einu niðurstöðuna sem dómari gat komist að. Hann gagnrýndi hins vegar mjög þá ákvörðun lögmannanna að segja sig frá málinu og fór fram á að dómari sektaði þá fyrir háttsemina.