Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, segir flokkinn eiga samleið með Framsóknarflokknum í ríkisstjórn. Hann er reiðubúinn til stjórnarsamstarfs með flokknum nái þeir saman um lausn á skuldavanda heimilanna. Björn sagði í samtali við fréttastofu Bylgjunnar í hádeginu að sér sýnist lítill vilji hjá Sjálfstæðisflokknum að koma til móts við vanda heimilanna og steyti stjórnarmyndunarviðræður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á því skeri.

Sigmundur hefur umboð forseta Íslands til stjórnarmyndunarviðræðna og hefur hann rætt í vikunni við formenn allra flokka sem náðu manni inn á þing. Hann mun ætla að ræða aftur við Bjarna Benediktsson í dag.

Hann sagði VG hafa unnið að því að lækka skuldir heimilanna og sé vilji fyrir því að halda verkinu áfram í samtarfi við góða aðila, þ.e. Framsóknarflokkinn.