Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, tók í ræðu á Alþingi í dag undir gagnrýni annarra þingmanna stjórnarandstöðunnar um að fleiri þingmenn stjórnarflokkanna þyrftu að vera til staðar í umræðum um fjáraukalögin. Umræður stóðu fram að miðnætti í gær og munu umræðurnar halda áfram í kvöld. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sagðist hafa verið á staðnum og gaf ekki mikið fyrir þessa gagnrýni.

Þá sagði Árni Páll að þótt Vigdís hefði verið líkamlega viðstödd hefði hún verið andlega fjarverandi og ekki tekið nægan þátt í umræðum.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók þessum orðum ekki vel og spurði hvort þetta væri rétta andlit Samfylkingarinnar, að segja konur vera andlega fjarverandi.