Hluti af 300.000 króna endurgreiðslu Sigurðar H. Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Eirar, til fyrirtækisins var vegna gjafar til Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Eirar. Í bréfi sem Sigurður sendi stjórn félagsins segir hann að þessi hluti varði gjöf sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fór fram á að fá frá Eir í tilefni af brúðkaupi sínu.

Sigurður segir að Ríkisendurskoðun hafi ekki látið svo lítið að hafa samband við sig til að kalla eftir skýringum og sjónarmiðum eða virða yfirleitt á nokkurn hátt andmælarétt gagnvart sér. Honum þyki þau vinnubrögð sérkennileg.

„Undanfarið hefur talsvert verið fjallað um málefni Hjúkrunarheimilisins Eirar. Erfið fjárhagsstaða þess er mikið áhyggjuefni og má ekki týnast eða gleymast í moldviðri um einstaka þætti eða einstaklinga sem málið varðar,“ segir í bréfi Sigurðar.