Grímur Sigurðsson lögmaður Brims segir að tillaga Seilar, stærsta eiganda Vinnslustöðvarinnar, á hluthafafundi félagsins í gær, um að fyrirtækið beiti sér fyrir því á hluthafafundi Landsbankans að viðskipti bankans við Brim verði rannsökuð þjóni engum viðskiptalegum hagsmunum. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafa ásakanir milli eigendahópanna gengið á báða bóga.

Hins vegar sé rannsókn á lánveitingum Vinnslustöðvarinnar til tveggja starfsmanna og hluthafa félagsins orðin enn meira aðkallandi nú vegna misvísandi upplýsinga um hver hafi verið tilgangur þeirra.

Það er hvort það sé til að hjálpa þeim að halda húsum sínum líkt og formaður stjórnar félagsins fullyrti í ræðu og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar tekur undir við Viðskiptablaðið , eða mögulega vegna viðskipta með stofnbréf í Sparisjóði Vestmannaeyja líkt og skilja megi af bréfi til Brims frá meirihlutanum í stjórn félagsins 7. júní síðastliðinn.

Segir framkvæmdastjórann staðfesta að um hefnd hafi verið að ræða

„Það er nauðsynlegt að rannsaka þetta, enda er þetta grundvöllurinn fyrir rannsóknarbeiðninni, sem hluthafafundurinn var kallaður út af, hvort það sé einhver tenging þarna á milli,“ segir Grímur og segir viðtal Viðskiptablaðsins við framkvæmdastjórann staðfesta að tillaga meirihlutans hafi verið hefndaraðgerð vegna þess sem hann kallar eðlilegt aðhalds minnihlutans.

„Það eina sem við höfum í höndunum þó um mögulega tenginu milli þessara lánveitinga annars vegar og kaupa á stofnfé í Sparisjóðnum er svarbréf stjórnarinnar sem kom 7. júní til Brim þar sem var skorað á Brim að draga til baka kröfur um þessa rannsókn. Það er fyrir utan tímasetningarnar, sem eru sambærilegar, því það er verið að hækka stofnfé þarna árið 2009, sem Vinnslustöðin tók þátt í.“

Hlutur Sparisjóðsins seldur til meirihlutans

Brim vill meðal annars fá svör við því hvenær lánin voru veitt, því í ræðu stjórnarformanns Vinnslustöðvarinnar á síðasta aðalfundi félagsins kom fram að þau hefðu verið veitt árið 2008 í kjölfar efnahagshrunsins, en í svarbréfinu segir að lánin, sem námu 6.218.469 krónum hvort, hafi verið veitt 18. júní 2009.

Í svarbréfinu segir jafnframt að þegar lánin hafi verið afskrifuð á síðasta ári hafi það verið gegn framsali á hlutabréfum í Landsbankanum, sem komu til af stofnbréfunum þegar Sparisjóðurinn rann þangað inn. Meðal ástæðna fyrir því að Brim telji nauðsynlegt að fá svar við þessum spurningum, sé vegna sölu á bréfum Sparisjóðsins í Vinnslustöðinni sem hafi runnið til núverandi meirihluta.

„Að hluta til tengist það sölu á hlutabréfum Sparisjóðsins í Vinnslustöðinni sem gerist annars vegar árið 2010 og hins vegar 2015, sem Brim hefur verið mjög ósátt við,“ segir Grímur.

„Brim reynir að kaupa bréfin árið 2015, en 2010 er það félag sem heitir Herbjarnarfell sem er í eigu Seilar, stærsta hluthafans í Vinnslustöðinni sem kaupir bréfin. Árið 2015 skilst mér svo að Seil hafi keypt bréfin beint, en Brim telur sig hafa þá gert mun hagstæðara tilboð.“

Segir verðhugmyndirnar óskiljanlegar

Jafnframt segist Grímur ekki skilja hvernig verðhugmyndir Sigurgeirs Brynjars framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar á Brim eru fengnar en hann segir að hvorki Guðmundur Kristjánsson sjálfur né Brim hafi fengið nokkuð afskrifað í Landsbankanum.

„Auðvitað hefur Guðmundur átt í einhverjum félögum sem hafa farið í gegnum þrot eða einhverjar endurskipulagningar, en það á ekki við um Brim eða hann sjálfan sem þessi rannsókn beinist að og Landsbankinn átti aldrei Brim,“ segir Grímur.

„Síðan var einhver stórfurðuleg aðferðafræði sem framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar notaði til þess að finna verðmætið á Brim á þessum tíma. Hann tekur tilboð frá Stillu útgerðar sem var m.a. í eigu Guðmundar, í hlut í Vinnslustöðinni og einhvern veginn yfirfærði það svo úr kæmi verðmæti Brims. Sagði hann þá að ef við bara metum þetta tilboð eru hlutirnir í Brim á upp í 17 milljarða króna virði. Þetta er algerlega óskiljanleg aðferðafræði.“