Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir rangt að bera saman dagvinnutíma sem miðist við 40 klukkustunda vinnutíma á viku hér á landi við uppgefnar tölur frá öðrum löndum. „Þetta er ekki rétt því dagvinnutími verður lengstur 37 stundir á Íslandi,“ segir Hannes í grein á vefsíðu SA .

„Umsamdir kaffitímar, 3 klukkustundir á viku, eiga þannig ekki að reiknast með vinnutíma þótt þeir séu greiddir. Kaffitímarnir eru eigin tími starfsmanna og þeim er yfirleitt frjálst að yfirgefa vinnustaðinn á meðan á þeim stendur.“

Segir hann misskilninginn leiða til þess að rangar ályktanir séu dregnar þegar hugmyndir og tillögur um styttingu vinnutíma hér á landi séu settar fram því flestir haldi að dagvinnutími á viku sé 40 stundir og bera hann saman við 37 eða 37,5 stundir í Danmörku og Noregi.

„Vinnutími er sá tími sem starfsmaður er við störf og til taks fyrir vinnuveitandann,“ segir Hannes.„Árlegar vinnustundir sem standa vinnuveitendum til ráðstöfunar á dagvinnukaupi eru 1.632 og er þá miðað við 37 stundir á viku, 28 daga meðalorlof og 11,4 sérstaka frídaga.“

Ofmat vinnustunda leiðir til vanmats á framleiðni

Segir Hannes að ofmat á vinnustundum hér á landi valdi því að afköst mælist léleg í alþjóðlegum samanburði, sem margir haldi að hægt sé að laga með einu pennastriki með styttingu vinnuvikunnar.

„Framleiðni á Íslandi er vanmetin vegna þess ofmats á vinnutíma sem felst í því að taldir eru greiddir tíma en ekki unnar vinnustundir,“ segir Hannes en hann segir aukna framleiðni hafa knúið fram bætt lífskjör hér á landi.

„Mældur (og ofmetinn) vinnutími hefur styst hér á landi um fjórar klukkustundir á viku á undanförnum tveimur áratugum og um 12-14 stundir sé litið til undangenginna fjögurra áratuga.“

Meiri yfirvinna vegna ósveigjanlegri samninga

Hannes segir jafnframt að mikill munur sé á greiddum vinnustundum og þeim sem séu raunverulega unnar hér á landi. Þar sé um að kenna mun ósveigjanlegri ákvæðum kjarasamninga hér á landi en á öðrum Norðurlöndum.

„Á Norðurlöndum eru víða miklir möguleikar á því að jafna vinnustundum milli daga og vikna og gera vinnutímann upp á lengri tímabilum, t.d. mánuði eða jafnvel enn lengri tímabilum,“ segir Hannes.

„Þannig er vinnustundum umfram vinnuskyldu á einu tímabili mætt með færri vinnustundum á síðara tímabili. Slíkur sveigjanleiki dregur mjög úr yfirvinnugreiðslum enda eru þær til dæmis aðeins 1% launagreiðslna í Danmörku en 15% á Íslandi.“