Miðað við röksemdarfærslur þingmanna ríkisstjórnar Samfylkingar og VG gaf hún kröfuhöfum gömlu bankanna yfir 100 milljarða krón af almannafé, að sögn SIgmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hann vísaði þar til þess að fyrri ríkisstjórn sem sat árin 2009 til 2013 hafi ekki skattlagt slitastjórnir fallinna banka og fjármálafyrirtækja eins og stefnt er að.

Það var Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi viðskiptaráðherra, sem spurði Sigmund út í skuldatillögur ríkisstjórnarinnar um lækkun hluta verðtryggðra íbúðalána sem kynntar voru í gær. Árni Páll vísaði til þess að áður fyrr hafi verið rætt um að skuldaleiðréttingin myndi kosta um 300 milljarða króna. Miðað við frumvarpið nú sé kostnaðurinn lægri, um 150 milljarðar króna en hluti fjármagnaður með almannafé. Á sama tíma sé ekkert gert fyrir þá tekjulægstu og þá sem hafi engin úrræði önnur en félagslegt húsnæði.

Sigmundur áréttaði að þingmenn núverandi stjórnarflokka hafi árum saman reynt að skýra að kostnaðurinn af skuldaniðurfellingu yrði aldrei 300 milljarðar króna heldur lægri. Þá gagnrýndi hann Árna Pál fyrir að halda því fram að aðgerðin verði fjármögnuð með almannafé. Hið rétt sé að skattur á slitastjórnir eigi að fjármagna verkefnið, skatti sem fyrri ríkisstjórn hafi látið hjá líða að leggja á. Sé litið á málið með þeim hætti megi halda því fram að ríkisstjórnin hafi gefið slitastjórnum meira en þá 100 milljarða sem þær hefðu annars greitt í skatt.