Stefán Baldur Gunnlaugsson, dósent við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, segir hækkun ICEX-vísitölunnar síðasta dag ársins benda til markaðsmisnotkunar þar sem aðilar á íslenskum verðbréfamarkaði fegri ársuppgjör sín. Þetta kom fram í erindi hans á málstofu sem haldin var við Háskólann á Akureyri síðasta föstudag, en Fréttablaðið greinir frá þessu.

Á málstofunni kynnti Stefán niðurstöður rannsóknar sinnar á breytingum ICEX-vísitölunnar frá ársbyrjun 1993 til 2013. Þar komi fram samhengi milli vikudags og ávöxtunar íslenskra hlutabréfa: ávöxtun sé mest á fimmtudögum og föstudögum en sé lítil sem engin í upphafi viku.

Þá kemur einnig fram í rannsókninni að síðasta dag ársins hafi vísitalan hækkað um 0,45% að miðgildi en lækkað um 0,48% á fyrsta degi ársins. Á síðari hluta tímabils sé það sama upp á teningnum, þar sem vísitalan fari upp um 0,51% að meðaltali á síðasta degi árs en niður um 0,22% á fyrsta degi nýs árs.

„Þetta bendir til þess að aðilar á íslenskum verðbréfamarkaði séu að fegra uppgjör sín. Það skýtur skökku við að það sé svona mikill munur á síðasta degi ársins og fyrsta degi nýs árs,“ segir Stefán.