Ekki er rétt að Vodafone neiti að afhenda gögn vegna fyrirhugaðrar hópmálsóknar Málsóknarfélagsins gegn fyrirtækinu, að sögn Hrannars Péturssonar, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins. Skúli Sveinsson lögmaður sem fer fyrir hópmálssókninni sagði í samtali við Fréttablaðið í gær Vodafone aðeins vilja afhenda núverandi viðskiptamönnum gögn sem tengist innbroti tölvuþrjóts inn á vefsíðu Vodafone í enda nóvember í fyrra og stulds á upplýsingum um viðskiptavini.

Hrannar segir í samtali við Fréttablaðið í dag að frá innbrotinu hafi verið unnið markvisst að því að koma gögnum til þeirra sem hafi óskað eftir slíku og tengjast símanúmerum þeirra sjálfra.

„Við verðum að sjálfsögðu að gera það með réttum hætti og eingöngu að láta umbeðnar upplýsingar í hendur rétthafa hvers númers. Það er einfalt fyrir okkur að staðreyna hver er skráður rétthafi þeirra símanúmera sem við erum að þjónusta. En við höfum ekki upplýsingar um skráða réttahafa númera hjá öðrum símafyrirtækjum þannig að við erum háðir upplýsingum frá þeim varðandi það,“ segir hann.