„Það voru engar vörur í könnuninni júlí sem voru með hærra verð á kassa en í hillu,“ segir Árni Stefánsson , forstjóri Húsasmiðjunnar, um frétt sem birtist á vef Neytendastofu í gær.

Á vefnum var frétt þar sem fram kom að vöruverð var kannað í verslun Húsasmiðjunnar í Skútuvogi í júní. Í júli fór Neytendastofa svo aftur í leiðangur til að fylgja fyrri könnuninni eftir. Á vef Neytendastofu sagði að kannað hefði verið verð á 25 vörutegundum. Í verslun Húsasmiðjunnar hafi verðmerkingar ekki verið í lagi og ósamræmi á milli hillu og kassaverðs hafi verið 20%.

Árni segist hafa fengið í dag skýrslu um heimsókn Neytendastofu í júlí. „Það voru tvær vörur af 25 sem var mismunur milli hillu og kassa og í báðum tilvikum var lægra verð á kassa,“ segir hann en bætir við að þrjár vörutegundir hafi að vísu verið óverðmerktar. Í fyrri könnun Neytendastofu, sem gerð var í júní, hafi verið gerðar athugasemdir við tvær vörutegundir. Önnur hafi verið lægri á kassa en hin hærri.

Árni segir að engu að síður sé það mikið keppikefli að vera með vörurnar rétt og vel merktar. „Við bregðumst við svona athugasemdum,“  segir Árni. Hann bendir á að vöruúrval Húsasmiðjunnar sé tug þúsundir vörutegunda og reynt sé að fylgjast vel með því að allt sé rétt verðmerkt.