Einn af miðlurunum sem sakaðir eru um að hafa handstýrt Libor millibankavöxtunum segir að stjórnendur þeirra banka, sem í hlut áttu, hafi vitað nákvæmlega hvað hann var að gera.

Tom Hayes er fyrsti miðlarinn sem fer fyrir rétt vegna þáttar síns í hagræðingu vaxtanna. Hann starfaði hjá UBS og Citigroup og neitar þeim átta ákærum sem hann hefur fengið fyrir svik.

„Það var fullkomið gagnsæi í minni vinnu. Yfirmenn mínir vissu þetta og yfirmenn yfirmanna minna vissu þetta. Í einhverjum tilfellum vissi forstjórinn meira að segja af þessu,“ sagði Hayes.

Hayes segist ekki hafa talið sig vera að brjóta lög og bendir á að hann hafi ekkert gert til að fela slóðir sínar. Hann trúði því ekki að hann væri að gera neitt rangt og segir að sinn eini hvati hafi verið að þéna eins mikið af peningum og hann gat fyrir bankann sinn.

„Ég myndi segja að græðgi sé rangt orð. Hungur er betra orð. Ég var hungraður í að gera mitt allra besta, því þannig er maður dæmdur,“ sagði Hayes við kviðdóm.

Hann segist hafa verið hissa árið 2010 þegar hann var kallaður á fund með lögfræðingum sem voru að kanna Libor markaðinn. Hann segist ekki hafa getað áttað sig á því hvaða lög hann kynni að hafa brotið.