„Gerspillt fjármálakerfi gróf undan Íbúðalaánsjóði,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og fyrrverandi innanríkisráðherra. Hann var harðorður í garð bankanna og þeirra sem hann sagði hafa veist að Íbúðalánasjóði í sérstökum umræðum um stöðu sjóðsins í kjölfar skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um starfsemi hans sem birt var í gær. Hann sakaði jafnframt skýrsluhöfunda um að ganga með fjármálakerfinu í aðför gegn Íbúðalánasjóði.

Ögmundur sagði mikilvægt að fjalla um liðna tíma og setja starfsemi sjóðsins í sögulegt samhengi. Hann rifjaði upp að um það leyti sem breytingar voru gerðar á sjóðnum hafi verið mikil átök í þjóðfélaginu.

„Fjármálakerfið og bankarnir vildu ná Íbúðalánasjóði til sín. En félagsleg öfl höfðu barist gegn því. Ég fagnaði því þegar talað var um 90% lán,“ sagði Ögmundur og benti á að umræðan um hlutfallshækkun útlána sjóðsins árið 2004 hafi verið á villigötum. Svo hátt hlutfall útlána hafi aðeins átt við um fasteignakaup fólks sem var að kaupa sína fyrstu íbúð.

„Staðreyndin er sú að hinn félagslegi þáttur íbúðalánakerfisins var veiktur á tíunda áratugnum. Bankarnir á þessum tíma voru hættir að lána til erfiðra staða. En þar kom til kasta íbúðalánasjóðs. Það sem menn hafa alltaf verið að reyna að gera er að þrengja að íbúðalaánsjóði. Við viljum að hann sinni öllum,“ sagði Ögmundur.