Jerome Powell, nýji seðlabankastjóri Bandaríkjanna, var nokkuð bjartsýnn um efnahagshorfur í Bandaríkjunum í fyrsta vitnisburði sínum fyrir bandaríska þinginu í dag. Powell sagði seðlabankann ætla að hækka vexti í skrefum til þess að koma í veg fyrir að hagkerfið ofhitnaði og verðbólga færi yfir markmið.

Financial Times telur orð Powell benda til þess að hann telji áhrif flökts á fjármálamörkuðum að undanförnu á hagkerfið vera hverfandi. Powell sagði jafnframt að nýjir kraftar drifu hagkerfið áfram og vísaði í því samhengi til örvandi ríkisfjármálastefnu og erlenda eftirspurn eftir bandarískri framleiðslu. Jafnframt spáði Powell því að verðbólga myndi hækka sem og laun.