Sigurður Erlingsson fráfarandi forstjóri Íbúðalánasjóðs segist vera búinn að ljúka því verkefni sem hann réð sig til að leysa hjá sjóðnum og því sé góð tímasetning fyrir sig að hætta núna. Hann verður áfram hjá sjóðnum og liðsinnir eftirmanni sínum þrátt fyrir að hann láti strax af störfum. Þessu greinir RÚV frá.

Eins og VB.is greindi frá var tilkynnt í morgun að Sigurður Erlingsson forstjóri Íbúðalánasjóðs hefði sagt upp starfi sínu. Forstjórastaðan yrði auglýst laus til umsóknar, en Gunnhildur Gunnarsdóttir staðgengill Sigurðar muni gegna starfi forstjóra í millitíðinni.

Sigurður sagði í samtali við RÚV að þetta væri bara persónuleg ákvörðun. Hann tók við starfinu 2008 og verkefnið sem hann þá tók að sér var að takast á við þessa stóru áskorun sem sjóðurinn stóð frammi fyrir. Nú sé komið að þeim tímapunkti að hann geti litið stoltur um öxl, sagt að hann sé búinn að ljúka þessu verkefni og allt komið í settlegt horf og þá finnist honum gott að stíga bara frá því og loka þeim kapítula í sínu lífi.

Sigurður sagðist ekki vera þannig innréttaður að hafa viljað njóta árangursins og stýra sjóðnum áfram við betri aðstæður, hann vilji frekar takast á við áskoranir. Hann sagði að ekki hafi verið þrýst á sig að hætta, heldur hafi hann hugleitt það um tíma að segja starfinu lausu og tímasetningin núna hafi verið góð

Sigurður saði að nú tæki við að sinna fjölskyldunni sem hafi séð lítið af sér auk nýrra áskorana.