Sigurmar K. Albertsson segir í viðtali við Eyjuna að hann eigi ekki né hafi nokkru sinni átt aflandsfélög. Þá sé fréttaflutningur mbl.is um málið til þess gerður að koma höggi á eiginkonu sína, Álfheiði Ingadóttur, sem er fyrrverandi heilbrigðisráðherra og þingmaður Vinstri grænna.

„Ég vann fyrir Kaupþing á sínum tíma. Sýrey er eitt af þeim félögum sem að ég stofnaði til við þá vinnu. Það var stofnað þegar verið var að ganga frá skuldaskilum vegna lands upp í Borgarfirði, í kringum Langá. Ég sá um þau skuldaskil og stofnaði þetta félag, og raunar annað einnig, sem að tók við þessum eignum,” segir Sigurmar.

„Ég sat í stjórn Sýreyjar í sex eða sjö mánuði, ásamt Kaupþingsmanni sem heitir Eggert Hilmarsson, sem búsettur er í Lúxemborg. Þegar búið var að afgreiða skuldaskilin gekk ég úr stjórn Sýreyjar, þann 10. febrúar 2006.”

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag birtist frétt á mbl.is þar sem því var haldið fram að eiginmaður Álfheiðar ætti aflandsfélag á Tortóla í gegnum annað í Lúxemborg. Í viðtalinu við Eyjuna segir Sigurmar að Sýrey, félag sem hann stofnaði þegar hann starfaði hjá Kaupþingi, hafi aldrei verið í eigu Holt Investment Group Ltd.

„Sýrey var skráð á okkar litla landi, Íslandi. Ég veit ekkert hvað varð um það eftir 10. febrúar 2006, þá var ég búinn að klára verkefnið og hef ekki heyrt af því síðan, fyrr en nú. Hvað varðar fullyrðingu Morgunblaðsins um að Sýrey hafi verið í eigu Holt Investment Group Ltd. árið 2005, áður en ég geng úr stjórn, þá er það einfaldlega ekki rétt. Holt Investment kannast ég ekkert við og hef aldrei heyrt um fyrr en þú sagðir mér frá því núna,” segir Sigurmar enn fremur.