Ingólfur Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga, segist ekki geta túlkað færslu á vef Fjármálaeftirlitsins sem afsökunarbeiðni. Ingólfur hefur deilt við FME eftir að FME komst að þeirri niðurstöðu að hann væri vanhæfur til að gegna starfi sínu sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins. Hann hefur unnið tvö dómsmál vegna þessara deilna.

Í gær fór hann fram á að ummæli sem birtust í frétt á vef FME í apríl yrðu fjarlægð og hann yrði beðinn afsökunar. Fréttin var fjarlægð og í texta sem birtist á vef FME í dag sagð i: „Fjármálaeftirlitið vill einnig taka fram að ef Ingólfur leggur þann skilning í fréttina að í henni hafi falist aðdróttanir eða ærumeiðingar í hans garð harmar Fjármálaeftirlitið það og ítrekar að slíkt var ekki ætlunin með umræddri  frétt heldur að leiðrétta missögn,“ segir í færslunni.

„Ég get á engan hátt túlkað þetta sem afsökunarbeiðni,“ segir Ingólfur í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins. Hann segist ekki hafa misskilið þann texta sem birtist á vef FME.