Á fundi forsetans og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag, segir að ekki hafi verið borin upp formleg tillafa um þingrof - aðeins að Sigmundur Davíð „hyggðist bera þingrofstillögu formlega upp við forseta ef niðurstaða um [að meirihlutastuðningur ríkisstjórnarinnar] lægi fyrir."

„Formleg tillaga um þingrof var hvorki borin upp á fundinum né kynnt forseta eins og skilja mátti af ummælum forseta Íslands að fundi loknum," er meðal annars sagt í tilkynningunni.

Hér að neðan má lesa hana í heild sinni:

Forsætisráðherra og forseti Íslands áttu fund á Bessastöðum nú laust fyrir hádegi í dag. Á fundinum upplýsti forsætisráðherra forseta um stöðu mála í stjórnmálum hér á landi og greindi jafnframt frá áformum sínum um að leggja til við forseta að þing yrði rofið og boðað yrði til almennra alþingiskosninga ef í ljós kæmi að meirihluta stuðningur við ríkisstjórnina væri brostinn.

Formleg tillaga um þingrof var hvorki borin upp á fundinum né kynnt forseta eins og skilja mátti af ummælum forseta Íslands að fundi loknum. Forsætisráðherra tjáði forseta að hann hyggðist bera þingrofstillögu formlega upp við forseta ef niðurstaða um framangreint lægi fyrir.