Forsvarsmenn Fjármálaeftirlitsins (FME) segja að launamiði, sem barst skattinum vegna greiðslu málskostnaðar til Ingólfs Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga, hafi ekki verið sendur af þeim. Fjármálaeftirlitið hafi ekki komið að þessari greiðslu heldur hafi hún verið á hendi Ríkislögmanns.

Í Viðskiptablaðinu fyrir viku var greint frá máli Ingólfs en samskipti hans við FME hafa mest megnis farið fram í dómsölum undanfarin fjögur ár. Skömmu eftir að hann var ráðinn framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins ákvarðaði stjórn FME að Ingólfur uppfyllti ekki hæfisskilyrði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og í kjölfarið var honum gert að hætta störfum.

Ingólfur taldi á sér brotið og fór í mál við FME. Dómur féll í því máli í janúar árið 2012 þar sem ákvörðun FME var dæmt ógild og var stofnuninni gert að greiða Ingólfi 1,3 milljónir króna í málskostnað. Því næst fór Ingólfur í skaðabótamál. Dómur í því máli féll í desember á síðasta ári og vann Ingólfur það mál einnig. Í seinna málinu var FME dæmt til að greiða Ingólfi tæpar 8,9 milljónir í miskabætur og málskostnað. Samtals hefur Fjármálaeftirlitið því þurft að greiða Ingólfi 10,2 milljónir króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .