Jón Gnarr segist hafa borið fulla ábyrgð á starfi sínu sem framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar. Hann ræddi feril sinn sem borgarstjóri í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Jón Gnarr lætur af starfi borgarstjóra í byrjun sumars eftir fjögurra ára starf. „Já auðvitað hef ég gert það og já ég hef borið fulla ábyrgð á mínu starfi eins og öðrum störfum sem ég hef gegnt. Ég hef reynt að setja mig inn  í mál eins og ég hef mögulega getað, en ég hef líka staðið fyrir ákveðna hugmyndafræði í samskiptum,‟ segir Jón.

Jón segist hafa reynt að draga úr óþarfa pólitískum afskiptum en auka fagmennsku. „Þá hefur mér verið borið á brýn að ég sé að láta embættismenn vinna öll störf fyrir mig,‟ segir Jón. Hann segist hafa sótt höfuðborgarráðstefnur á öðrum Norðurlöndum og horfi til stjórnsýslunnar þar. Hann bendir á að í rannsókn á starfsemi Orkuveitunnar hafi komið fram að óþarfa pólitísk áhrif hafi verið of mikil og of lítil fagmennska. Þetta hafi líka verið niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis.

Jón Gnarr segist bjartsýnn á það að núverandi meirihluti haldi áfram eftir kosningar og bendir á að skoðanakannanir bendi til að vilji standi til þess. Þetta sé gott því Besti flokkurinn hafi komið með stöðugleika í borgarmálin. Hann segist ekki vita hvað tekur við hjá sér persónulega í lok kjörtímabilsins. Hann hafi ekki fengið atvinnutilboð.