Breskur lögmaður, Katie Tantum, hefur höfðað mál gegn sínum fyrrverandi vinnuveitanda, lögmannsskrifstofunni Travers Smith. Hún segir að sú ákvörðun fyrirtækisins að bjóða henni ekki varanlegan ráðningarsamning að loknu eins árs kandídatsári hjá stofunni, hafi verið tekin af því að hún var þá ólétt. Af tuttugu og tveimur nýbökuðum lögmönnum hjá stofunni voru aðeins þrír sem ekki fengu framhaldsráðningu og var Tantum ein þeirra.

Katie Tantum.
Katie Tantum.

Tantum, sem er dóttir Geoffrey Tantum, fyrrverandi yfirmanns Mið-Austurlandadeildar bresku leyniþjónustunnar, segir að afstaða og framkoma yfirmanna til hennar hafi breyst mjög hratt eftir að hún greindi þeim frá því að hún ætti von á barni.

„Í mínu tilviki virðast þeir hafa spurt sig hvort þeir vildu nýjan lögmann, sem myndi vera til staðar á skrifstofunni, eða lögmann sem væri á leiðinni í fæðingarorlof,“ segir hún í samtali við breska blaðið Telegraph.

Lögmannsstofan hefur vísað ásökunum hennar á bug og segir að hún hafi ekki verið nógu sleip í fræðunum.

Tantum segir í viðtalinu að hún geri sér grein fyrir því að með því að fara dómstólaleiðina sé hún líklega að draga úr möguleikunum á því að hún fái vinnu hjá virtri lögmannsstofu í London. Hún sé hins vegar að þessu annars vegar til að sækja bætur fyrir töpuð laun og líka í þeirri von að þetta leiði til þess að stofan þurfi að breyta því hvernig nýir lögmenn eru ráðnir.