*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Erlent 31. mars 2020 09:33

Segist hafa losað Bandaríkin við veiruna

Einn auðugasti sjónvarpsprestur Bandaríkjanna fullyrti í sjónvarpsmessu að hann hafi rekið kórónuveiruna úr landi.

Ritstjórn
Kenneth Copeland ákallar almættið og rekur veiruna á brott úr Bandaríkjunum.
Aðsend mynd

Ávarp bandaríska sjónvarpsprestsins Kenneth Copeland hefur vakið talsverða athygli. Í ávarpinu biður guð og Jesú að aðstoða sig í baráttunni við djöfulinn og hjálpa til að reka kórónuveiruna úr Bandaríkjunum. Í lok ávarpsins fullyrðir hann svo að verkinu sé lokið og kórónuveiran sé farin úr landinu.

Tveim vikum fyrr fullyrti Copeland að hann gæti læknað þá sem horfðu á ávarp hans af kórónuveirunni. Ótti við veiruna væri synd sem gæfi djöflinum leið inn í líkamann. Hann bað áhorfendur að snerta sjónvarpið til að læknast af veirunni.

 

Frá því að ávarpinu lauk hafa tugir þúsunda Bandaríkjamanna greinst með veiruna og talið er að minnst 18 mánuðir séu í að bóluefni finnist við veirunni.

Kenneth Copeland er með ríkustu sjónvarpsprestum heims. Auður hans er metinn á um 760 milljónir dollara, um 110 milljarða króna. Hann hefur verið duglegur að fá safnaðarmeðlimi sína til að gefa í sjóði kirkjunnar, og lofað þeim hundraðfaldri ávöxtun. Peningarnir hafa þó að talsverðu leyti runnið í kaup á glæsivillum einkaflugvélum sem Copeland nýtir sér. Hann var meðal umfjöllunarefnis í sjónvarpsþætti John Oliver um sjónvarpspresta árið 2015.

 

Trúarleiðtogar efast um kórónuveiruna

Íhaldssöm trúaröfl víða um heim hafa verið efins um viðbrögð stjórnvalda við kórónuveirunni. Mörg hver hafa þráast við að loka kirkjum og bænahúsum og kennt kunnuglegum andstæðingum um útbreiðslu veirunnar.

Una Sighvatsdóttir, fyrrverandi blaða- og fréttamaður á Stöð 2 og Morgunblaðinu og upplýsingafulltrúi Nato í Georgíu bendir til að mynd á viðbrögð kirkjunnar manna í Georgíu. Stjórnvöld hafi tekið á útbreiðslu veirunnar af röggsemi og sett á samgöngubann og reynt sitt allra besta til að hafa upp á smituðum. Hins vegar var haldin messa í stærstu kirkja landsins, þvert á samkomubann stjórnvalda, og kirkjugestir tóku við sakramenti úr sömu skeiðinni. Þá var samkynhneigð og fóstureyðingum kennt um útbreiðslu veirunnar.