*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 4. maí 2013 10:45

Segist í góðri aðstöðu til að hafa áhrif

Þóranna Jónsdóttir var ráðin deildarforseti viðskiptadeildar HR í síðasta mánuði. Hún ræðir um starfið í samtali við Viðskiptablaðið.

Gísli Freyr Valdórsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Áhugi minn byggir fyrst og fremst á því að vera í starfi sem skiptir einhverju máli,“ segir Þóranna Jónsdóttir, sem í síðasta mánuði var ráðin deildarforseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík (HR). Hún hefur frá því í maí í fyrra starfað sem framkvæmdastjóri rekstrar og stjórnunar hjá HR. Þar áður gegndi hún starfi framkvæmdastjóra samskipta og viðskiptaþróunar hjá Auði Capital.

Viðskiptablaðið spurði Þórönnu m.a. að því hvað hafi orðið til þess að hún ákvað að fara úr fjármálageiranum yfir í fræðasamfélagið. Þóranna er þó ekki ókunn HR því hún starfaði sem lektor og forstöðumaður á árunum 1999-2005.

Hún segir:

„Ég held að maður sé sjaldan í betri aðstöðu til þess heldur en þegar maður hefur áhrif á framtíð viðskipta-og efnahagslífsins í gegnum það fólk sem maður er í snertingu við hér. Á þeim tíma sem ég starfaði hér áður fann ég hvað það skiptir miklu máli að fólk í námi, hvort sem það er ungt fólk í grunnnámi eða fólk í meistaranámi, fái bæði þá hvatningu og tilsögn sem nauðsynleg er. Mitt hlutverk sem deildarforseti er að styðja við bakið á kennurunum sem hér starfa og tryggja það að okkar áherslur í kennslu og rannsóknum séu til þess fallnar að undirbúa fólk fyrir viðskiptalífið. Ég er svo heppin að hafa bæði reynslu úr akademíunni og atvinnulífinu. Það er ekki skynsamlegt að byggja svona nám eingöngu á fólki sem hefur verið innan akademíunnar alla tíð. Við þurfum agann í aðferðafræðinni sem er notuð í akademíunni en við þurfum líka innsýnina í það sem gerist innan viðskiptalífsins, hvort sem það er fjármálastjórn, markaðsmál eða stjórnun almennt.“

Ítarlega er rætt við Þórönnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.