Nýtt frumvarp um afnám einkasölu ríkisins á áfengi er í undirbúningi. Einn af flutningsmönnum frumvarpsins, Pawel Bartoszek, staðfesti það í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Pawel segir jafnframt að það eigi ekki að breyta þeim aðgangshindrunum sem eru í gildi í áfengissölu. Það verði enn umtalsverðar hömlur á því hvernig áfengi sé selt. Hann kvaðst nokkuð bjartsýnn á það að meirihluti væri í þinginu fyrir frumvarpinu.

Nokkuð kurr virðist þó ríkja á þinginu um nýja frumvarpið. Fréttablaðið ræddi við nokkra þingmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, sem sögðust óvissir með stuðning við frumvarpið. Flutningsmenn frumvarpsins eru; Teitur Björn Einarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Hildur Sverrisdottir úr Sjálfstæðisflokki, Pawel Bartoszek úr Viðreisn, Nichole Leigh Mosty úr Bjartri framtíð og Viktor Orri Valgarðsson úr Pírötum.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í viðtali við Fréttablaðið að hann kæmi til með að greiða atkvæði á móti frumvarpinu. Haft er eftir honum að hann hafi haft þá afstöðu lengi og bendir á að það sé ekki vandamál fyrir neinn að fá sér vín. „Ég er mjög íhaldssamur í þessum efnum,“ er haft eftir Ásmundi í Fréttablaðinu.

Þingmenn óvissir

Sömuleiðis segir Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, að hann sé óviss um hver afstaða sín verði komi til atkvæðagreiðslu. Hann segir að afstaða hans myndi líklega byggja á umsögnum landlæknis. Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður og varaformaður Framsóknar, er einnig óviss. Hún segir að hún myndi byggja afstöðu sína á hvað lýðheilsurannsóknir gefi til kynna hvað komi best út.

Því er nokkuð óvíst um hvort að nægur stuðningur sé í þinginu vegna óvissu þingmanna.