Nýr framkvæmdastjóri viðskiptasviðs hjá Wow air, Tómas Ingason, hefur áður unnið hjá flugfélaginu. „Þetta er spennandi tækifæri, en Wow er á allt öðrum stað heldur en þegar ég var hjá þeim seinast. Félagið er búið að vaxa gríðarlega og fram undan er mikill vöxtur,“ segir Tómas en telur þó að fyrirtækið sé að mörgu leyti enn rekið eins og frumkvöðlafyrirtæki.

„Wow var enn meira í frumkvöðlafasa á þeim tíma og menn gengu bara í þau verk sem þurfti að ganga í, enda Wow á þeim tíma miklu minna fyrirtæki með óljósari verkaskiptingu. Núna er verið að búa til hefðbundnari stjórnendastöðu þar sem ég verð höfuðið á allri tekjumyndun hjá fyrirtækinu. Undir það falla þá sölu- og markaðssvið, tekjustýring, þjónustan og önnur tekjumyndandi verkefni. Mitt hlutverk verður að samþætta það og sjá til þess að allir séu að hlaupa í sömu áttina.“

Eins og sést af líkingamáli Tómasar er hann með bakgrunn í íþróttum. „Ég er enn mikið í íþróttum, hef gaman að krossfit og almennri útiveru og hreyfingu. Ég var lengi í fótbolta og æfði með Fram, Val og fleiri félögum. Þangað til á síðasta ári var ég svo markmannsþjálfari hjá Fram í þrjú ár, sem var mjög skemmtilegt,“ segir Tómas sem sjálfur spilaði stöðu markmanns. Spurður hvort menn þyrftu ekki að vera stórir og útlimalangir í þá stöðu sagði hann hvorugt eiga við um sig. „Þú getur annaðhvort verið stór og mikill eða lítill og snöggur.“

Tómas er giftur Rúnu Rut Ragnarsdóttur sem er forstöðumaður sölu- og bókunardeildar hjá Icelandair Hotels og saman eiga þau tvö börn, 14 ára stúlku og strák sem er að verða 10 ára. „Við erum bæði í bransanum,“ segir Tómas en hann þakkar konu sinni að hafa dregið sig inn í krossfit-íþróttina, sem hann segir henta mjög vel þeim sem hafi alist upp í hópíþróttum. „Já, það er smá keppni í þessu, en konan mín fann eðalhóp sem sér til þess að að maður mætir nánast á hverjum morgni.“

Tómas hefur nánast alla tíð unnið í flugiðnaðinum en hann fór tvisvar út til Boston til að mennta sig frekar í geiranum. „Fyrsta starfið mitt var í upplýsingatækni hjá Icelandair og svo fór ég í verkefnisstjórn áður en ég fer út til Boston og tek markaðsgráðu hjá MIT,“ segir Tómas sem ákvað að fara aftur út til Boston til að fá sér MBA gráðu fimm árum seinna.

„Þetta var svo skemmtilegt í fyrra skiptið að ég varð að fara aftur. Í bæði skiptin bjuggum við fjölskyldan á skólagörðum sem voru mikil forréttindi enda fólk frá 60 þjóð- um í sama íbúðarkjarna og eigum við nú vini frá Ísrael og Perú og alls staðar að úr heiminum.“

Nánar er rætt við Tómas í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .