Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borginni, segir að það hafi ekki hvarflað að sér, eina einustu mínútu, að segja af sér sem borgarfulltrúi. Hann kveðst hafa rætt stöðu sína við formann Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, um helgina, sem og í gær. Hann segist í Viðskiptablaðinu í dag njóta stuðnings Geirs sem og Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins.

Vilhjálmur svaraði fyrirspurnum ljósvakamiðlanna í beinni útsendingu frá Valhöll í gær. Þar lýsti hann því yfir að hann  væri ekki að hætta sem borgarfulltrúi. Hann ætlaði hins vegar að íhuga málið varðandi borgarstjórastólinn. Í samkomulagi núverandi meirihluta í borginni er gert ráð fyrir því að Vilhjálmur taki við af Ólafi F. Magnússyni sem borgarstjóri 22. mars 2009.

Fyrir fjórum mánuðum sat Vilhjálmur ekki við ósvipaðar aðstæður í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem hann ásamt öðrum borgarfulltrúum sjálfstæðismanna lýsti því yfir að búið væri að leysa ágreining innan hópsins um framvindu REI-málsins. Í gær var Vilhjálmur hins vegar einn í útsendingunni; engir borgarfulltrúar sátu við hans hlið.

Vilhjálmur neitar því í samtali við Viðskiptablaðið í dag að það þýði að hann njóti ekki stuðnings hópsins. Hann segist hafa viljað hafa þetta svona sjálfur í ljósi þess að kastljósið beindist að honum.  "Það var ég sem vildi hafa þetta svona."

Inntur eftir því hvort hann njóti stuðnings annarra í borgarstjórnarhópnum svarar hann: "Já."

Spurður hvort hann njóti stuðnings forystu flokksins svarar hann: "Já, ég hef rætt þessi mál við formann flokksins. Ég hef þó ekki rætt þetta við Þorgerði Katrínu."

Spurður hvort hann njóti þá stuðnings Geirs svarar hann: "Já og líka fyrrverandi formanns."

Þegar hann er áfram spurður hvort hann njóti trausts Davíðs Oddssonar svarar hann: "Já."