Guðmundur Steingrímsson segist taka skoðanakannanir mjög alvarlega og segist alltaf reiðubúinn að íhuga stöðu sína sem formaður Bjartrar framtíðar. Hann segir að Björt framtíð þurfi að hætta að láta aðra flokka skilgreina sig. Þetta kemur fram í frétt RÚV .

Í frétt RÚV er haft eftir Guðmundi að Björt framtíð muni koma til þings í haust með þéttan þingmálapakka. Guðmundur segir að þingmenn flokksins hafi góðan tíma til að sanna fyrir fólki að flokkurinn snúist um meira en vinnustaðamóral á Alþingi eða breytingar á klukkunni. „Við erum flokkur með mjög stórt hjarta og mikla stefnu og viljum gera þetta samfélag á svo margan hátt betra. Það þurfum við að fara að segja fólki og ætlum að gera,“ segir Guðmundur.

Björt framtíð hefur ekki mælst með minna fylgi í skoðanakönnunum frá síðustu Alþingiskosningum, þegar flokkurinn fékk sex menn kjörna á þing. Flokkurinn mældist með 4,4% fylgi í síðustu könnun MMR .