Jóhannes Rúnar Jóhannsson, lögmaður Erlendar Magnússonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Glitni, krefst þess að mál á hendur skjólstæðingi sínum verði vísað frá dómi.

Erlendur var framkvæmdastjóri deildar sem sá um skuldsetta fjármögnun hjá Glitni áður en skilanefnd tók bankann yfir í október árið 2008.

Í mars það sama ár seldi félagið Fjársjóður ehf. hlutabréf í Glitni fyrir tíu milljónir króna, en Erlendur og kona hans eru eigendur einkahlutafélagsins.

Sérstakur saksóknari telur að Erlendur hafi sér nýtt sér innherjaupplýsingar sem hann komst yfir þegar hann seldi hlutabréfin og ákærði hann og félagið fyrir innherjasvik. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Erlendur var ekki á skrá yfir innherja í bankanum. Sérstakur saksóknari telur hann hins vegar hafa uppfyllt öll skilyrði þess enda hafi hann átt að hafa upplýsingar um slæma lausafjárstöðu bankans.

Sex milljónir af þeim tíu sem félag Erlendar seldi fyrir voru kyrrsettar í júlí og er krafist upptöku þeirra.

Ástæða frávísunarkröfunnar var ekki reifuð við þingfestinguna en málflutningur um hana fer fram 8. október næstkomandi.

Erlendur mætti við þingfestinguna en var ekki spurður út í afstöðu sína til sakarefnisins.