Ástralski frumkvöðullinn Craig Wright hefur nú stigið fram og segist vera skapari rafmyntarinnar Bitcoin. Hingað til hafði hann starfað undir dulnefninu Satoshi Nakamoto. Þetta kemur fram á vef fréttaveitunnar BBC í dag. Wright seg­ist hafa stigið fram nú til þess að eyða vanga­velt­um um hver raun­veru­leg­ur skap­ari raf­mynt­ar­inn­ar sé.

Samstarfsmenn hans og þró­un­art­eymi Bitcoin þess hafa staðfest full­yrðingu Wright. Yfirlýsingar hans hafa þó ekki sannfært alla  og á vef the Economist er m.a. ritað að enn eigi eftir að gera grein fyrir ýmsum mikilvægum atriðum svo hægt sé að sanna að hann sé rauverulega Satoshi Nakamoto.

Grun­ur hafði leikið á að Wright væri raun­veru­leg­ur skap­ari bitco­in. Á mbl.is er rifjað upp að tíma­rit­in Wired og Gizmodo birtu um­fjall­an­ir þess efn­is í des­em­ber og byggðu á gögn­um sem talið er að hafi verið stolið frá hon­um. Í kjöl­farið gerðu áströlsk yf­ir­völd hús­leit á heim­ili hans að beiðni skatts­rann­sókna­stjóra.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um málið á sínum tíma. Nakamoto, eða Wright, var þá meðal þeirra sem tilnefnd voru til Nóbelsverðlauna í hagfræði - en hugmyndin að baki rafmyntarinnar, hið svokallaða Blockchain, hefur verið talin byltingarkennd fyrir fjármálaheiminn í heild sinni. Stórir bankar og fjármálafyrirtæki hafa þegar byrjað að þróa útgáfur af kerfinu.