Það að heimila innflutning á lifandi nautgripum, hestum og sauðfé hefur í för með sér mikla hættu á sjúkdómum í íslenskum dýrum. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem kynnt var á vefsíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í dag. Í annarri skýrslu segir að árlegur kostnaður vegna garnaveiki í íslenskum nautgripum myndi nema milli 17 og 200 milljónum króna. Núvirtur heildarkostnaður er sagður vera milli 340 og 2.000 milljónir króna.

Í skýrslunum er gert ráð fyrir því að einstakir bændur myndu nýta sér heimild til að flytja inn dýr frá Danmörku til að bæta stofn sinn. Jafnframt er gert ráð fyrir því að fimm bændur á ári myndu byggja upp nýjan stofn með því að flytja inn um það bil tuttugu dýr. Miðað við þessar forsendur eru sagðar 100 prósent líkur á því að garnaveiki komi upp í íslenskum nautgriupum innan fimm ára.

Kostnaðurinn um 2 prósent af verðmætinu

Í annarri af þeim tveim skýrslum sem kynntar voru í dag er reynt að leggja mat á kostnaðinn vegna þessa. Þrjár erlendar rannsóknir benda til þess að kostnaður bænda af garnaveiki sé um 2 prósent af framleiðsluverðmætinu. Í skýrslunni er bent á að erfitt sé að yfirfæra erlendar niðurstöður á íslenskar aðstæðar, en gert er ráð fyrir að kostnaður íslenskra kúabænda af garnaveiki gæti numið 1,5 til 2,5 prósent af verðmæti framleiðslunnar.

Skýrsluhöfundar telja líklegast að tap af völdum sjúkdómsins myndi nema um 40-56 milljónum króna á ári. Núvirtur heildarkostnaður vegna sjúkdómsins er þá 800-1.100 milljónir. Séu ákveðnir óvissuþættir teknir með í reikninginn er tapið metið 17-200 milljónir króna á ári.