Arðgreiðsla HB Granda upp á 1,7 milljarða króna vegna síðasta rekstrarárs er ekki of mikið. Án slíkra greiðslna af hlutafé yrði lítið um fjárfestingar í nýsköpun, störfum myndi fækka og lífskjör almennings rýrna, að mati Samtaka atvinnulífsins (SA), sem líkir arði af hlutabréfum sem vöxtum af ríkisskuldabréfum.

Arðgreiðslur HB Granda hafa verið nokkuð í fjölmiðlum upp á síðkastið eins og undangengin ár. Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram um málið að félagið Vogun sem er að mestu í eigu Kristjáns Loftssonar og fjölskyldu og ekkju og fjölskyldu Árna Vilhjálmssonar, fyrrverandi stjórnarformanns HB Granda, fær rúmlega 680 milljónir króna af heildargreiðslunni.

Ávöxtunin er hófleg

SA þykir tilefni til umfjöllunar um málið á vefsíðu sinni í dag. Þar segir orðrétt:

„Arður af hlutafé er sambærilegur við vexti af ríkisskuldabréfum en sá grundvallarmunur er á þessu tvennu að arðurinn er ekki í hendi og fer eftir velgengni viðkomandi fyrirtækja. Hlutaféð getur tapast og þess vegna eru gerðar meiri kröfur um arðsemi af innborguðu hlutafé í fyrirtækjum en vexti af áhættulausum ríkisskuldabréfum eða innlánum í bönkum. Vel rekin fyrirtæki sem skila hluthöfum sínum arði leggja grunn að öflugu atvinnu- og þjóðlífi. Það gildir jafnt um lítil fjölskyldufyrirtæki, meðalstór iðnfyrirtæki og sjávarútvegsfyrirtæki almennt.“

Og áfram heldur SA:

„Þetta er hófleg ávöxtun því ávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa er nú rúm 6%, þ.e. ávöxtun hluthafa á fé sitt er svipuð og býðst á ríkisbréfum. Undanfarin ár hafa arðgreiðslurnar verið mun minni en nú og ávöxtun hluthafa því langt undir þeim vöxtum sem bjóðast af ríkisbréfum. Vextir ríkisbréfa eru afar lágir um þessar mundir og í ljósi áhættulausrar fjárfestingar í ríkisbréfum verður að telja umrædda arðgreiðslu HB Granda, sem nemur 6% af eigin fé, lága og spyrja má hvort þeir sem gagnrýna arðgreiðslur telji eðlilegra að beina fjármunum til ríkisins en til fjárfestingar í atvinnulífinu.“