Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi þann 12. febrúar.

Hagfræðideildin segir að góð rök megi færa fyrir vaxtalækkun og óbreyttum vöxtum að þessu sinni. Hagfræðideildin telur 35% líkur á því að vextir verði lækkaðir að þessu sinni og 65% líkur á að þeir verði óbreyttir. Þróunin undanfarna mánuði útiloki nánast vaxtahækkun að þessu sinni.

„Haldist verðbólgan á svipuðum slóðum og verði kjarasamningar festir betur í sessi eru meiri líkur á vaxtalækkun þá. Framhaldið mun þó velta að mestu leyti á þróun gengis krónunnar og kjarasamningum,“ segir Hagdeild Landsbankans.