Í yfirlýsingu frá stjórn Spron kemur fram að Fjármálaeftirlitið heimilaði ekki birtingu innherjaupplýsinga vegna viðskipta með bréf félagsins. Í yfirlýsingunni segir að reglur um viðskipti innherja með stofnfjárhluti hafi verið settar að frumkvæði Spron þegar verið var að undirbúa stofnun tilboðsmarkaðar með stofnfjárhluti 2004.

Síðan segir í yfirlýsingunni: ´"Eins og lög gera ráð fyrir var óskað eftir umsögn Fjármálaeftirlitsins um stofnun tilboðsmarkaðarins og gerð reglnanna.  Í tillögum stjórnar var meðal annars lagt til að upplýsingar um viðskipti innherja með stofnfjárbréf yrðu gerð opinber með sama hætti og slíkar upplýsingar eru gerðar opinberar hjá skráðum félögum í kauphöll.  Í svari Fjármálaeftirlitsins dagsettu 30. júní 2004 er tekið fram með vísan í 34. gr. kauphallarlaganna „að koma þurfi í veg fyrir ruglingshættu við skipulegan tilboðsmarkað eða kauphöll, en hætta á ruglingi getur skapast svo sem með því að birta skipulega upplýsingar um viðskiptin með sama hætti og kauphöll og skipulegur tilboðsmarkaður gera eða á nokkurn þann hátt að hætta skapist á ruglingi við slíka starfsemi.“  Varðandi birtingu viðskipta innherja er síðar sagt í sama bréfi að „það er mat Fjármálaeftirlitsins að verði upplýsingar birtar um viðskipti þeirra stofnfjáreigenda sem jafnframt eru fruminnherjar Spron, með stofnfjárskírteini, sé með því verið að líkja eftir reglum sem gilda um skráða fjármálagerninga og er það líklegt til að valda ruglingshættu milli tilboðsmarkaðarins og kauphallar eða skipulegs tilboðsmarkaðar.“  Jafnframt er sagt síðar í bréfinu: „Að mati Fjármálaeftirlitsins er fyrirhuguð upplýsingagjöf til þess fallin að gefa til kynna að verðbréfamarkaðurinn sé skipulagður og er hún því óheimil skv. 34. gr. kphl.“

Af framansögðu segir stjórnin ljóst:

• Vilji stjórnar Spron stóð alltaf til þess að upplýsingar um viðskipti innherja yrðu opinberar en slíkt var ekki heimilt skv. ofangreindri niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins.

• Það er alls kostar rangt sem komið hefur fram í fjölmiðlum að stjórnin hafi túlkað afstöðu Fjármálaeftirlitsins.

• Stjórn Spron var beinlínis óheimilt að breyta öðruvísi en hún gerði.