Héraðsfréttablaðið Eyjafréttir greina frá átökum um Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum í opnuumfjöllun sinni í dag. Þar kemur fram að Landsbankinn, viðskiptabanki Vinnslustöðvarinnar, hafi fimmtudaginn 12. apríl síðastliðinn látið hringja í fjölda hluthafa í Vinnslustöðinni hf. og gert tilboð í hlutabréfin í fyrirtækin á genginu 8,0.

Þetta tilboð var langt yfir genginu sem síðast hafði verið skráð á bréfum í VSV í kauphöllinni OMX. Eyjafréttir segja að verðbréfasalarnir hafi bæði hringt í einstaklinga í Eyjum, sem eiga stóra hluti í VSV, en einnig í Lífeyrissjóð Vestmannaeyja og Sparisjóð Vestmannaeyja, sem sömuleiðis eiga hluti í VSV.

"Víst er að verðbréfasalarnir náðu ekki þeim árangri sem þeir væntu. Aðgerð þeirra setti hins vegar í gang atburðarás átaka um eignarhald í félaginu," segir í Eyjafréttum.

Í Eyjafréttum kemur fram að eftir hringingarnar hafi einn hluthafi hringdi í annan hluthafa í Eyjum og greindi frá upphringingunni frá Landsbankanum, að sá hafði líka fengið nákvæmlega eins erindi símleiðis úr höfuðborginni. "Og þegar menn fóru að bera betur saman bækur sínar kom í ljós að hringt hafði verið úr Landsbankanum í fjölda hluthafa á sama tíma með sams konar tilboð í hlutabréfin í VSV. Þar með virtist liggja ljóst fyrir að bankinn hafði skipulagt einhvers konar skyndiáhlaup til að safna eignarhlutum í VSV hjá fjölda hluthafa á sama augnablikinu í þeim tilgangi að gefa hluthöfum ekki tóm til að ráðgast innbyrðis um það sem kynni að vera að gerast."

Í frétt blaðsins kemur fram að í fyrstu vissu menn í Eyjum ekki í hverra þágu áhlaup Landsbankans væri en þegar leið á daginn fékkst staðfest að bankinn væri að bjóða í hlutabréf Vinnslustöðvarinnar fyrir hönd bræðranna Guðmundar og Hjálmars Kristjánssona frá Rifi (eigenda Brims hf.). Félög í eigu þeirra og þeir sjálfir eiga samanlagt ríflega 30% í Vinnslustöðinni. Hjálmar er í stjórn VSV en Guðmundur í varastjórn.

"Þarna var með öðrum orðum blásið til átaka um eignarhald og forræði í VSV. Og vel að merkja, minnihlutaeigendurnirnir þurftu ekki að bæta miklu við sig til að hafa meira vald á fyrirtækinu en meirihlutaeigendur félagsins kærðu sig um. Þrjú prósent hlutafjár til viðbótar myndu þannig færa minnihlutanum í eigendahópnum umtalsvert meiri ítök og betri valdastöðu í félaginu en hann hefur nú," segir í Eyjafréttum.

Í blaðinu kemur fram að viðbrögð heimamanna létu ekki á sér standa og sunnudaginn 15. apríl var boðað til fundar nokkurra lykilhluthafa í Eyjum þar sem gengið var munnlega frá samkomulagi eigenda 50,04% hlutafjár um ?stjórnun og rekstur Vinnslustöðvarinnar hf.?


Fulltrúar hluthafanna og lögmenn þeirra sátu síðan yfir því í um hálfan sólarhring að ganga frá formsatriðum. Um þrjúleytið aðfararnótt mánudags 16. apríl var hluthafasamkomulagið undirritað og tilkynning þar að lútandi send Kauphöllinni til birtingar að morgni dags. Þar fylgdi með að aðstandendur samkomulagsins myndu gera öðrum hluthöfum tilboð um að kaupa hluti þeirra í VSV, í samræmi við ákvæði laga um hlutabréfaviðskipti. Sömuleiðis lýsti hluthafahópurinn þeim vilja sínum að afskrá félagið í Kauphöllinni segir í blaðinu.