Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Jóni Þórissyni, forstjóra VBS fjárfestingabanka, hefur verið brugðist við athugasemdum FME á starfsemi bankans sem komu í kjölfar reglubundins eftirlits í ágúst síðastliðnum

FME hefur birt á heimasíðu sinni niðurstöðu úttektar á eignastýringarsviði VBS fjárfestingarbanka. Úttektin fór fram um miðjan ágústmánuð sl. og var m.a. framkvæmd með vettvangsrannsóknum og úrtakskönnunum.

,,Í úttekt sinni á starfsemi eignastýringar VBS benti FME á atriði sem betur mættu fara í starfsemi einingarinnar. Voru þar á ferðinni ábendingar og athugasemdir sem eru ekki af alvarlegum toga en úrbætur og lagfæringar þeirra atriða stuðla að bættri þjónustu við viðskiptavini eignastýringar og til þess fallnar að auka traust á starfseminni. Við þessum athugsemdum hefur verið brugðist enda eru flest þeirra atriða komin til framkvæmda," segir í frétt inni á heimasíðu VBS.

Þar er jafnframt bent á að eignastýring er viðkvæm og flókin starfsemi og mikilvægt að allt sé þar eins og best verður á kosið, og á það jafnt við um þekkingu starfsfólks, tölvukerfi og aðstöðu. ,,VBS fagnar því að aðhalds sé gætt af hálfu FME og okkur og öðrum þannig gert kleyft að betrumbæta starf okkar og tryggja sem best hag viðskiptavina okkar með því að veita úrvals þjónustu sem stenst ítrustu skoðun," segir í fréttinni.