Hækka þarf aðgangseyri í sund í Reykjavík og eldri borgarar eiga ekki að fá ókeypis í sund heldur afslátt. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu starfshóps borgarinnar um framtíðarsýn sundlauganna.

Fram kemur um skýrsluna í Fréttablaðinu í dag að aðgangseyrir og aðrar tekjur sundlauganna eru nú tæplega 60 prósent af kostnaði þegar ekki er tekið tillit til fasteignakostnaðar. Heildartekjur lauganna námu 557,8 milljónum króna árið 2011. Þar segir m.a. að aðgangseyrir í sundlaugar Reykjavíkurborgar ætti að fjármagna 70 prósent af rekstrarkostnaði lauganna, öðrum en fasteignakostnaði, frá árinu 2015. Til þess að svo geti orðið þarf að auka tekjurnar um 94 milljónir á ári, sem samsvarar 170 þúsund stökum gjöldum fullorðinna í sund.