Hópur óháðra fræðimanna í Tyrklandi sem rannsakar verðbólguna þar í landi segir að árleg verðbólga hafi mælst 186,27% í september. Þetta kemur fram á tyrknesku fréttasíðunni Duvar.

Rannsóknarhópurinn, sem kallast „ENAG Inflation Research Group“ gaf það einnig út að verðbólgan hafi aukist um 5,3% milli mánaða.

Þessar tölur eru talsvert hærri en þær sem tyrkneska hagstofan gaf út nú á dögunum. Þá sagði hún verðbólguna hafa mælst 83,45% í mánuðinum.

Erdogan hafnar þeirri almennu hagfræðikenningu að hærri vextir dragi úr verðbólgu og hefur skipað seðlabankanum að halda vöxtum langt undir ársverðbólgu. Bankinn hefur lækkað vexti um eitt prósentustig tvo mánuði í röð, úr 14% í 12%.