Stjórn Þórs, félags ungra sjálfstæðismanna á Akranesi hefur sent frá sér tilkynningu þar sem lýst er vanþóknun á „einstaklega ósanngjarnri aðför sem undanfarnar vikur hefur verið gerð að bankastjórn Seðlabanka Íslands og þá sérstaklega einum af bankastjórum hans,“ eins og það er orðað í tilkynningu frá félaginu.

Þá bendir stjórn Þórs á að kapp er best með forsjá í tengslum við hugsanlegar aðildarviðræður um inngöngu í Evrópusambandið.

„Sú staða sem íslensk þjóð er í um þessar stundir má ekki verða til þess að miklum langtímahagsmunum sé fórnað fyrir ímyndaða lausn til skamms tíma, má í þessu sambandi benda á þá stöðu sem Írland og Spánn finna sig í um þessar mundir, svo einhver dæmi séu nefnd,“ segir í ályktun félagsins.

Ályktunin er hér birt í heildi sinni:

Stjórn Þórs, félags ungra sjálfstæðismanna á Akranesi lýsir vanþóknun sinni á einstaklega ósanngjarnri aðför sem undanfarnar vikur hefur verið gerð að bankastjórn Seðlabanka Íslands og þá sérstaklega einum af bankastjórum hans. Hefur engin fyrirhöfn verið spöruð til að gefa almenningi þá mynd, að Seðlabanki Íslands hafi einhvern veginn brugðist hlutverki sína undanfarið og að sem mest af óhöppum íslensks efnahagslífs sé honum að kenna.

Þessi áróður stenst ekki skoðun. Má í því sambandi til dæmis minna á, að Seðlabanki Íslands hefur ekki lengur það hlutverk að hafa eftirlit með bankakerfinu, heldur hefur sú skylda undanfarin tíu ár hvílt á Fjármálaeftirlitinu.

Jafnframt bendir stjórn Þórs f.u.s. á að kapp er best með forsjá í tengslum við hugsanlegar aðildarviðræður um inngöngu í Evrópusambandið. Sú staða sem íslensk þjóð er í um þessar stundir má ekki verða til þess að miklum langtímahagsmunum sé fórnað fyrir ímyndaða lausn til skamms tíma, má í þessu sambandi benda á þá stöðu sem Írland og Spánn finna sig í um þessar mundir, svo einhver dæmi séu nefnd.

Þessi varnarorð eru sértaklega mikilvæg í ljósi framgöngu Ervópusambandsins í garð Íslands í tengslum við lausn Icesave deilunnar og afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á lánsumsókn íslenska ríkisins. Að því máli skoðuðu er ljóst að söngur aðildarsinna um að rödd smáríkja heyrist hátt og skýrt innan Evrópusambandsins er falskur mjög. Raunin er sú að hagsmunir hinna stærri ganga framar hagsmunum hinna smærri. Yfirferð á því hagsmunamati sem liggur til grundvallar ákvörðunar um hvort sækja skuli um aðild að Evrópusambandinu er sjálfsagt, en nauðsynlegt er að það hagsmunamat fari fram af yfirvegun með langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Þeirri staðhæfingu, sem iðulega er haldið á lofti í fjölmiðlum og af pólitískum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í gegnum tíðina lokað á umræðu um Evrópumál innan sinna raða er með öllu hafnað. Sú niðurstaða umræðu innan flokksins, að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrpópusambandsins en innan þess, hefur verið málefnaleg og vel rökstudd í gegnum tíðina.

Hafi einhverjar þær breytingar orðið sem réttlæta breytta afstöðu í þeim efnum, koma þær fram í því hagsmunamati sem nýskipuð nefnd undir formennsku Kristjáns Þórs Júlíussonar alþingismanns fer fyrir. Niðurstaða þeirrar nefndar verður lögð fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins í lok janúar og efnisleg afstaða tekin til málsins rétt eins og á landsfundum undanfarinna ára.

Að endingu hvetur stjórn Þórs f.u.s. alla þá sem koma að lausn þeirrar krísu sem íslenskt samfélag finnur sig í um þessar mundir, undir styrkri forystu forsætisráðherra, til dáða.

F.h. stjórnar Þórs, félags ungra sjálfstæðismanna á Akranesi. Rúnar Ólason, formaður.