Bandalag háskólamanna og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hafa sent frá sér sameiginlega ályktun um lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar um frestun verkfalla félaganna. Þar segir að þessi afskipti stjórnvalda af verkfallsrétti og samningsfrelsi stéttarfélaga sé alvarlegt inngrip í lögmæta starfsemi stéttarfélaga.

Segja félögin að almennt bann við afskiptum stjórnvalda og löggjafans sé bæði að finna í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

„Samþykki Alþingi frumvarpið eru aðildarfélög BHM og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga sem samningsaðilar svipt þeim þvingunarúrræðum sem stéttarfélögin hafa til að knýja á um samningsniðurstöðu. Með frumvarpinu er ríkið sem annar deiluaðili að leggja til lög á kjaradeilur sem það á sjálft aðild að. Undirstrikar það enn og aftur að ríkið hefur frá upphafi átt í sýndarviðræðum,“ segir í ályktuninni.

Hvetja félögin alþingismenn til að samþykkja ekki frumvarpið og beina því til stjórnvalda að koma af alvöru að samningaborðinu.