Ákvörðun aðalfundar stoðtækjafyrirtækisins Össurar úr Kauphöllinni segir talsvert um stöðu hins íslenska hlutabréfamarkaðar og hversu skaðleg gjaldeyrishöft geta verið. Fjölþjóðlegt fyrirtæki á borð við Össur sem þarf umfram annað erlenda fjármögnun hefur lítið að sækja inn á þennan markað sem sökum gjaldeyrishafta getur einungis skapað því íslenskar krónur. Uppbygging hans við umhverfi gjaldeyrishafta verður því fyrst og fremst með skráningu félaga sem þarfnast innlendrar krónufjármögnunar.

Þetta segir í umfjöllun greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þetta muni takmarka verulega hversu hratt markaðurinn geti byggst upp.

Umfjöllun greiningar:

„Höftin takmarka líka verulega áhuga fjárfesta og þá ekki síst erlendra fjárfesta að markaðinum. Afskráning Össurar, þar sem meirihluti fjárfesta eru erlendir, er til merkis um þetta en erlendir hluthafar félagsins hafa verið meira áfram um afskráninguna en þeir íslensku. Aðalfundur samþykkti afskráninguna á föstudaginn með um 70% atkvæða.

Össur hefur verið skráð í íslensku kauphöllinni frá árinu 1999 og er eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins. Fyrirtækið hefur verið allar götur frá skráningu skipað umfangsmikinn sess á hlutabréfamarkaðinum og uppbyggingu hans og að sama skapi hefur hinn íslenski hlutabréfamarkaðar átt stóran þátt í uppbyggingu Össurar. Frá skráningu hefur fyrirtækið sótt sér talsvert fé á hinum íslenska hlutabréfamarkaði sem hefur nýst því í uppbyggingu þess.

Gjaldeyrishöftum og krónunni að kenna
Forstjóri fyrirtækisins, Jón Sigurðsson, hefur sagt að starfsemi félagsins hér á landi hafi verið að aukast og ekki sé von á breytingum þar á. Hins vegar sé það afar erfitt að reka alþjóðafyrirtæki á Íslandi með krónuna og gjaldeyrishöftin. Afskráningin tengist því efnahagsumhverfinu og þá umfram annað fyrirkomulagi gjaldeyrismála. Össur hefur verið skráð bæði í kauphöllinni hér á landi sem og í Kaupmannahöfn síðan í lok árs 2009 en mun nú einvörðungu vera skráð í síðarnefndu kauphöllinni.

Íslenskir hluthafar Össurar sem eignuðust bréf sín fyrir 1. nóvember síðastliðinn hafa fengið undanþágu frá Seðlabankanum varðandi umbreytingu bréfa sinna og flutning þeirra úr íslensku Kauphöllinni yfir í þá dönsku. Núverandi hluthafar Össurar sem eignuðust hlutabréf sín í Kauphöll Íslands eru bundnir skilaskyldu á gjaldeyri við sölu á hlutabréfum sínum í Kaupmannahöfn. Afskráningin merkir einnig að íslenskir fjárfestar geta ekki lengur fjárfest í Össuri fyrir krónueignir sínar en geta hins vegar notað eignir sínar í erlendri mynt, eigi þeir einhverjar, til að fjárfesta í hlutabréfum félagsins í Kaupmannahöfn.“