Bankasýsla ríkisins óskaði þann 12. febrúar sl. eftir upplýsingum um sjónarmið bankaráðs Landsbankans um laun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra bankans, sem mikið hefur verið í umræðunni eftir að fram kom í fréttum að þau hefðu hækkað um rúmlega 80% á innan við ári. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá voru laun bankastjóra Arion banka helmingi hærri.

Í svari bankaráðs kemur m.a. fram að hækkun á launum bankastjóra Landsbankans frá árinu 2017 sé til komin vegna þess að á árunum 2009-2017 heyrðu kjör bankastjóra undir kjararáð sem varð til þess að laun bankastjóra drógust langt aftur úr þeim launum sem greidd voru fyrir sambærileg störf.

Á meðan ákvörðun um laun bankastjóra Landsbankans var í höndum kjararáðs gerði bankaráð ítrekaðar athugasemdir við fyrirkomulagið og úrskurði kjararáðs. Launakjör bankastjórans voru ekki samkeppnishæf og því ekki í samræmi við starfskjarastefnu bankans að mati bankaráðs.

Þegar nýr bankastjóri var ráðinn til starfa 23. janúar 2017 lá fyrir að ákvörðun um að kjör bankastjóra Landsbankans myndu færast frá kjararáði til bankaráðs 1. júlí 2017. Í starfskjarastefnu bankans, sem samþykkt hefur verið á hluthafafundi, segir m.a.: „Starfskjör helstu stjórnenda skulu vera samkeppnishæf við kjör stjórnenda í stærri fyrirtækjum á fjármálamarkaði og ákveðin í samræmi við lög, en þó ekki leiðandi.“

Í eigandastefnu ríkisins frá 2009 segir m.a.: „Opinber fjármálafyrirtæki skulu tileinka sér hófsemi þegar kemur að launakjörum. Með þessu er átt við að laun stjórnenda eigi að standast samanburð á þeim sviðum sem viðkomandi fyrirtæki starfa á, en séu ekki leiðandi.“

Segja launin í samræmi við stefnu um hófleg og ekki leiðandi

Í eigandastefnunni frá 2017 er kveðið á um eftirfarandi meginreglu: „Félagið skal setja sér starfskjarastefnu sem er samkeppnishæf, en hófleg og ekki leiðandi.“ Að mati bankaráðs var ákvörðun um laun bankastjóra í samræmi við þetta.

Við mat bankaráðs á hver laun nýs bankastjóra ættu að vera var m.a. aflað gagna frá óháðum ráðgjafarfyrirtækjum um laun stjórnenda annarra fjármálafyrirtækja og forstjóra stórra fyrirtækja á Íslandi og óskað álits á hver samkeppnishæf laun væru.

Eðlileg laun á bilinu 3,5 til 4,9 milljónir á mánuði

Niðurstöður þeirra voru m.a. að eðlilegt væri að launin væru á bilinu 3,5-4,9 milljónir króna á mánuði. Í kjölfarið var samið um að laun bankastjóra yrðu 3,25 milljónir króna frá og með 1. júlí 2017. Í ráðningarsamningnum kemur fram að það sé stefna bankaráðs að greiða bankastjóra samkeppnishæf laun.

Launin voru síðan endurskoðuð í samræmi við ákvæði samningsins og starfskjarastefnunnar frá og með 1. apríl 2018. Heildarlaun bankastjóra nema nú 3,8 milljónum króna á mánuði. Eftir hækkunina eru laun bankastjóra Landsbankans umtalsvert lægri en laun bankastjóra hinna stóru bankanna tveggja.

Í svari bankaráðs sem birt er á vef bankans er nánar fjallað um forsendur og aðdraganda ákvörðunar um laun bankastjóra Landsbankans, m.a. um hvernig bankaráð tók mið af tilmælum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.