Í bréfi sem Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi írskum stjórnvöldum í sumar eru Írar gagnrýndir fyrir að veita tölvufyrirtækinu Apple eins konar ríkisaðstoð í gegnum skattaívilnanir. Kemur þetta fram í frétt BBC um málið en bréfið hefur nýlega verið gert opinbert.

Fyrirtækjaskattur í Írlandi er um 12,5%, einna lægstur á meðal OECD þjóða, en Apple greiðir í raun 2% skatt á Írlandi í gegnum meintar ívilnanir. Bæði Apple og írsk stjórnvöld neita því að fyrirtækið njóti sérstakra undanþága.

Framkvæmdastjórn ESB kannar um þessar mundir hvort lönd á borð við Írland, Lúxemborg og Holland veiti stórfyrirtækjum óhóflega miklar undanþágur frá skattalögum.