Í sænska blaðinu Dagens Industri kemur fram að íslensku bankarnir þrír hyggist gefa út skuldabréf og jafnvel vera skráðir á hlutabréfamarkaðinn þar í landi þegar þeir fara á markað.

Nefnir blaðið þar sérstaklega að Arion banki horfi til þess að vera skráður bæði í kauphöllina á Íslandi og í Svíþjóð, en þær eru báðar reknar af Nasdaq.

Fjallar blaðið um íslenska bankakerfið og hvernig innlendu starfsemi bankanna hafi verið bjargað í hruninu og jafnframt um umtalsverða starfsemi þeirra í Svíþjóð fyrir fall þeirra.

Auk þess að tala við æðstu yfirmenn bankanna er fjallað um stjórnarformann Arion banka, Moniku Caneman, sem starfaði í 24 ár hjá SEB bankanum, svo hún þekki vel til sænska markaðarins.

Kjarninn fjallar um frétt sænska blaðsins þar sem þeir rifja meðal annars upp að íslenska ríkið eigi 80% af íslenska bankakerfinu bæði beint með 98% hlut í Landsbankanum og 100% eignarhlut í Íslandsbanka, 13% í Arion banka og beinna og óbeinna eignarhluta í sparisjóðakerfinu.

Auk þess telja þeir upp útlánastofnanir eins og Íbúðalánasjóð, Byggðastofnun og LÍN.