Réttarkerfið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hefur verið misnotað illilega í máli Benedikts Guðmundssonar, rúmlega fertugs manns sem sakaður er um að hafa falsað skjöl tengdri smíði á snekkju fyrir kaupsýslumann í Dúbaí í nafni félagsins Scandic International. Benedikt fór í mál við kaupanda snekkjunnar en það hefur nú snúist við. Málaferli standa nú yfir í málinu ytra en Benedikt var ákærður fyrir að nota falsað skjal í málaferlum. Stjórn félagsins segir sakargiftir tilhæfulausar.

Aðdragandi málsins er sá að viðkomandi einstaklingur leitaði fyrir fjórum árum fjárfesta í Abu Dhabi til að hjálpa honum að koma fyrirtæki sínu á fóti. Fyrirtækið átti að framleiða og selja snekkjur. Íslendingurinn á að hafa hitt mögulegan fjárfesti sem bauðst til að veita fjármagn í fyrirtækið ef hann fengi fyrst afhenda smíðaða snekkju frá frá því.

Eftir að Benedikt hafði afhent snekkjuna fékk hann þó enga fjármuni frá fjárfestinum. Hann fór með málið fyrir dóm þar sem hann bar sigur úr býtum. Fjárfestinum var gert að endurgreiða snekkjuna en hún er sögð tæplega 198 milljóna íslenskra króna virði.

Í kjölfar þess úrskurðar lögsótti fjárfestirinn Íslendinginn fyrir að hafa notað fölskuð skjöl í málflutningnum.

Benedikt er stjórnarformaður Scandic International. Hann og aðrir í stjórn félagsins segja í tilkynningu þar sem farið er yfir málið. Þar segir að sá sem Scandic International hafi upphaflega kært hafi höfðað mál í Dubai á þeirri forsendu að umboð þeirra  til lögfræðingsins væri ekki gilt. Þótt bæði íslensk stjórnvöld og dómsmálaráðuneyti Sameinuðu arabísku furstadæmanna hafi brugðist við hafi reynst örðugt að eiga í samskiptum við utanríkisráðuneyti furstadæmanna. Þau vísa öllum málatilbúningi þess sem kærði á bug.

Fréttatilkynning Scandic International í heild

„Árið 2010 þá neyddist stjórn félagsins Scandic International ehf til þess að höfða mál í Abu Dhabi vegna þess að ekki var staðið við greiðslu samkvæmt gerðum samningi. Þar sem stjórnarmenn félagsins voru staddir í Kína á þessum tíma þá var skrifað undir umboð fyrir lögmann félagsins í Sendiráði Íslands í Peking 15. janúar 2010 til að fara með málið í rétti. Í framhaldi var umboð þetta stimplað og staðfest í Ministry of Foreign affairs í Dubai 11. febrúar 2010 og afhent þáverandi lögmanni félagsins sem fékk umboð þetta stimplað og staðfest í Minstry of Justice UAE. Málaferli hófust í framhaldi og unnust þau á öllum dómsstigum í Abu Dhabi.

Í desember 2011 var stjórnarformaður félagsins beðinn um að koma til Abu Dhabi með skjöl til staðfestingar á umráðarétti yfir félaginu. Ástæða þess var sú að dregið var í efa af ákærða umboð lögmanns félagsins. Við þessu var strax brugðist og skjöl lögð fram sem sönnuðu fullan eignar- og umráðarétt á félaginu. Í framhaldi þá hélt innheimtuferli áfram af fullum þunga af hálfu dómara í Abu Dhabi og er það ferli enn í gangi og meðal annars þá hefur handtökuskipun nú verið gefin út á hendur ákærða í því máli til að fylgja innheimtu eftir.

Án vitneskju stjórnar þá höfðaði ákærði hins vegar mál í Dubai á þeirri forsendu að umboð okkar til lögfræðingsins væri ekki gilt. Síðastliðnar vikur hafa stjórnarmenn félagsins unnið að því að verjast því máli.  Íslensk stjórnvöld brugðust mjög hratt við og staðfestu stimpil og undirskrift er þeim viðkemur, undirskrift og stimpill frá Ministry of Justice UAE hefur einnig verið staðfestur en örðugast hefur reynst að eiga við Ministry of Foreign affairs í Dubai varðandi fangamerki, undirskrift neðst í þeirra stimplum sem veittir voru af þeirra starfsmanni fyrir rúmlega tveimur árum síðan. Ástæða þessa kann að liggja í því að strangt til tekið þá hefði einnig þurft UAE sendiráðsstimpil til viðbótar og/eða stimpil frá íslensku sendiráði í UAE, hins vegar var stimpill veittur á þeirri forsendu að Ísland er ekki með sendiráð í UAE. Ákæra á hendur stjórnarformann félagsins vegna þess að ekki tekst að bera kennsl á fangamark á stimpli á umboði sem félagið veitti sínum eigin lögmanni er fjarstæðukennt. Hér er um tilhæfulausar sakargiftir að ræða sem eingöngu eru til þess fallnar að tefja fyrir greiðslu til félagsins.

Að mati stjórnar hefur réttarkerfið í UAE einnig verið misnotað svo illilega í þessu máli enda hafði stjórnarformanni félagsins margsinnis verið hótað áður og ítrekað reynt að nota mál þetta til að skapa samningsstöðu í því máli sem félagið vann.

Stjórnarmenn félagsins vilja koma á framfæri sérstöku þakklæti til íslenskra stjórnvalda við aðstoð vegna þessa máls sem vonandi leysist á næstu misserum.

Við munum ekki tjá okkur frekar um málið að svo stöddu.

Fyrir hönd stjórnar Scandic International ehf

Benedikt G. Guðmundsson stjórnarformaður / formaður

Kristján Björn Ómarsson

Tyrfingur Guðmundsson“