Framkvæmdastjórar þriggja lífeyrissjóða telja að forysta Alþýðusambands Íslands (ASÍ) skrökvi í umsögn sinni um frumvarp um breytingar á lífeyrissjóðskerfinu og gefa lítið fyrir röksemdir sambandsins um lýðræði. Þetta kemur fram í viðbótarumsögn sem nýverið var birt á þingvefnum.

Um er að ræða frumvarp fjármálaráðherra sem rekja má aftur til kjarasamninga á almennum markaði vorið 2019, oft kallaðir „lífskjarasamningar“. Um er að ræða eina umfangsmestu breytingu á lífeyrissjóðakerfinu frá lögfestingu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Fjallað var um umsagnir um frumvarpið í byrjun mánaðar en af þeim mátti ráða að þorri umsagnaraðila hefði horn í síðu fyrirhugaðra breytinga. Þær væru til þess fallnar að auka á flækjustig kerfisins auk þess að það félli illa að réttindakerfi ákveðinna sjóða. Þá skyti skökku við að keyra ætti breytinguna í gegn þegar rúmlega helmingur sjóða væri andvígur breytingunum og þeir sem væru henni hlynntir stæðu undir minna en helmingi eigna og árlegum iðgjöldum sjóðanna.

Þátttaka allra hornsteinn lýðræðis

Í kjölfar umsagnanna sendi ASÍ þinginu viðbótarumsögn. Þar kom fram að félagsfólk aðildarfélaga samtakanna væru almennt ekki hálaunafólk og því eðlilegt að eignir sjóða þeirra væru í hlutfalli við það. „Ágætt er að á Íslandi er lýðræði þar sem áhrif og vægi í umræðu fer ekki eftir efnahagsstöðu heldur er það fjöldinn sem telur,“ segir í viðbótarumsögn ASÍ.

„Það er ekki nóg að lýðræðisleg vinnubrögð séu ástunduð innan vébanda ASÍ. Þvert á móti er mikilvægt að slík vinnubrögð séu viðhöfð á öllum stigum lagasetningar,“ segir í umsögn framkvæmdastjóranna þriggja. Þar eru á ferð Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa, Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna, og Ólafur Páll Gunnarsson framkvæmdastjóri Íslenska.

„Það liggur fyrir að umfang lífeyrissjóða sem standa utan ASÍ og SA, þ.á m. lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna, hefur vaxið jafnt og þétt á liðnum árum og er nú svo komið að þessir lífeyrissjóðir eru á flesta mælikvarða stærri en lífeyrissjóðir innan samtakanna. Fulltrúar lífeyrissjóða utan ASÍ og SA hafa bent á þessa staðreynd til að undirstrika þá eðlilegu kröfu að fulltrúar allra sjóðfélaga fái áheyrn í lagasetningarferlinu. Þátttaka allra er einmitt hornsteinn hinnar lýðræðislegu hefðar,“ segir í umsögninni og látið í veðri vaka að afstaða stórs hluta lendi milli skips og bryggju með frumvarpinu.

Leiðrétta rangfærslu ASÍ

Í umsögn ASÍ sagði enn fremur að „[hjákátlegt sé] að þaðan sem lífeyriskerfið sé helst flækt komi rök um flækjustig gegn lögfestingu frumvarps sem miðar að því að samræma áhrif greiðslna úr lífeyrissjóðum við greiðslur almannatrygginga. Erfitt er að sjá aðrar ástæður fyrir flækjum búnar til innan svokallaðra frjálsu sjóða en að þær séu kúnstir miðaðar að því að spila á almannatryggingar.“

Þessu svara sjóðirnir með því að benda á að enginn lífeyrissjóður hafi talað fyrir því að viðbótarsparnaður teldist ekki til tekna við útreikning á tekjutryggingu almannatrygginga. Slík breyting var lögfest á Alþingi árið 2008 að frumkvæði stjórnvalda. Þá er á það bent að sjóðir innan samningssviðs ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hafi, allt frá árinu 1997, haft heimild til að bjóða hluta sjóðsfélaga að ráðstafa hluta lágmarksiðgjalds í séreign en kosið að gera það ekki.

„Að framansögðu er ljóst að fyrirkomulag frjálsra sjóða var komið á 11 árum áður en skerðingarreglum almannatrygginga gagnvart séreignarsparnaði var breytt og því stenst ekki sú ályktun ASÍ að fyrirkomulagi frjálsra sjóða hafi verið komið á til að spila á almannatryggingar og er henni því mótmælt sem rangri,“ segir í umsögn framkvæmdastjóranna. Þá er enn fremur á það bent að ályktanir um aukið flækjustig virðist vera nokkuð almennar en þær megi meðal annars sjá í umsögnum Seðlabankans, Skattsins, Verkalýðsfélags Akraness og Bandalags háskólamanna. Talningin er ekki tæmandi.