*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 10. febrúar 2015 16:30

Segja auðmenn stela frá samfélaginu

Þrír þingmenn Vinstri-grænna segja þá sem flytji fé í skattaskjól hlunnfara samfélag sitt. Vilja að Alþingi samþykki kaup á gögnum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, Svandís Svavarsdóttir og Ögmundur Jónasson, þingmenn sama flokks, hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að skattrannsóknarstjóri fái að gera það „sem þarf" til kaupa á gögnum sem varða meint undanskot Íslendinga í 416 tilfellum.

Í tillögunni segir að undanfarið hafi „athygli almennings og stjórnvalda víða um lönd beinst að svonefndum skattaskjólum" og umfjöllun um þau hafi færst í vöxt seinustu ár.

Stela skattgreiðslum og varðveita illa fengið fé

Jafnframt segir: „Með víðtækri og sívaxandi alþjóðavæðingu undanfarinna ára og áratuga hefur það færst mjög í vöxt að auðmenn feli fé sitt í skattaskjólum og njóta við það liðveislu fjármálafyrirtækja og ýmissa sérfræðinga. Jafnframt hefur það gerst að skattyfirvöld ýmissa ríkja og frjáls félagasamtök á borð við Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (International Consortium of Investigative Journalists) auk fjölmiðlafólks, samfélagsrýna, stjórnmálamanna og ýmissa aðila annarra hafa blásið til baráttu gegn stuldi á skattgreiðslum og varðveislu illa fengins fjár í skattaskjólum."

Furða sig á vinnubrögðum ráðherra

Í þingsályktunartillögunni eru skilyrði fjármála- og efnahagsráðuneytis til kaupa á gögnunum og viðbrögð þess við vinnubrögðum skattrannsóknarstjóra sögð vekja furðu.

Ráðuneytið hafði gert það að skilyrði að aðilinn sem hefði gögnin til sölu væri bær til þess að semja um afhendingu þeirra til íslenska ríkisins og að viðkomandi myndi sætta sig við árangurstengdar greiðslur fyrir. Nú hefur komið í ljós að minnsta kosti annað skilyrðið er ekki uppfyllt, en viðkomandi hefur hafnað árangurstengdum greiðslum fyrir afhendinguna. Vill hann heldur fá 150 milljónir króna fyrir. Fjármálaráðherra hefur sagt að fullyrðingar embættisins í tengslum við málið hafi ekki í öllum tilfellum staðist og málið hafi legið of lengi á borði embættisins óhreyft.

Af því tilefni segir í þingsályktunartillögunni: „Viðbrögð og ummæli ráðherra vekja furðu. Í ljósi þess vandræðagangs sem upp er kominn, er fyrirliggjandi þingmáli ætlað að stuðla að því að afstaða og vilji Alþingis í þessu brýna máli komi fram og skattrannsóknarstjóra verði heimilað að gera það sem gera þarf til að kanna hvort ástæða sé til að kaupa umræddar upplýsingar og tryggi fé til kaupanna ef rétt þykir að láta verða af þeim."

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is