Batnandi fjárhagur einkageirans er drifkraftur innlendrar eftirspurnar að mati Aðalhagfræðings Seðlabankans en hreinn auður heimila hefur vaxið um 18% milli áranna 2015 og 2016.

Telja þeir auknar líkur á vaxtalækkun, en það fari eftir spennu á vinnumarkaði, hvort SALEK samkomulagið haldi og hvort aðhalds verði gætt í ríkisfjármálum.

Jafnframt spáir Seðlabankinn 5% hagvexti á árinu, en 4,5% hagvexti á næsta ári.

Vaxandi spenna í hagkerfinu meðan aðhald í ríkisfjármálum minnkar

Þetta er meðal þess sem fram kemur markaðspunktum Greiningardeildar Arion banka þar sem þeir fara yfir stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans. Eins Viðskiptablaðið hefur fjallað um ákvað bankinn að halda vöxtunum óbreyttum í morgun.

Segja þeir ástæðuna vera merki um vaxandi spennu í hagkerfinu, þrátt fyrir að verðbólguhorfur fari batnandi og kjölfesta verðbólguvæntinga styrkist vegna þess að aðhald í ríkisfjármálum að minnka og töluverð óvissa ríkir um stefnu í ríkisfjármálum næstu árin.

Raungengi yfir jafnvægisgengi

Seðlabankinn gerir ráð fyrir 4% styrkingu krónunnar árið 2019 frá því sem nú er, en samkvæmt spá hans er gert ráð fyrir að raungengi krónunnar haldi áfram að hækka og verður undir spátímans orðið 6% hærra en árið 2007.

„Þetta er nokkuð hærra raungengi en gert er ráð fyrir í nýútkominni hagspá Greiningardeildar og er að okkar mati raungengi sem er verulega yfir jafnvægisraungengi,“ segir í punktum greiningardeildarinnar.

„Það kemur okkur þó nokkuð á óvart að Seðlabankinn spái jafn háu raungengi og raun ber vitni, einkum í ljósi þess að raungengið verður árið 2019 nærri 17% yfir því jafnvægisraungengi sem bankinn mat í maí sl. Í hagspá Greiningardeildar kom fram að mikil gengisstyrking í viðbót, þ.e. frá byrjun nóvember, myndi að öllum líkindum þýða að gengið myndi gefa eftir síðar.“

Verðbólgukúfurinn ekki á leiðinni

Því sé hinn umtalaði verðbólgukúfur ekki á leiðinni, miðað við uppfærða verðbólguspá Seðlabankans, heldur verði verðbólga við og undir markmið út árið 2018, en fari lítillega yfir það árið 2019, þó það sé innan vikmarka.

Segir greiningardeildin því auknar líkur á vaxtalækkun á næstu misserum, en það velti á þremur þáttum.

  1. Að hve miklu leiti innflutt vinnuafl nái að draga úr spennu á vinnumarkaði.
  2. Hvort launaþróun næstu mánuði fari fram úr því sem SALEK samkomulagið felur í sér.
  3. Hvort aðhalds verði gætt í ríkisfjármálum í stefnu nýrrar ríkisstjórnar

Hagvöxtur 5% á árinu

Því til viðbótar séu horfur á að raunvextir gætu lækkað á næstu árum, sem enn auki líkur á lækkun stýrivaxta.

Seðlabankinn spáir 5% hagvexti á árinu, en Greiningardeildin spáði litlu minni, eða 4,7% hagvexti, því þeir gerðu ekki ráð fyrir jafnmiklum vexti samneyslu og óhagstæðari utanríkisviðskiptum og Seðlabankinn.

Hins vegar spáir deildin meiri hagvexti á næsta ári, eða 5,2% en Seðlabankinn sem spái 4,5%, sem skýrist af mismunandi mati á vexti atvinnuvegafjárfestingar.