Neytendastofa hefur fallist á kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna um markaðssetningu og upplýsingagjöf Brúar Lífeyrissjóðar um neytendalán. Segja samtökin að Neytendastofa hafi þar með staðfest að lögum samkvæmt eigi lánveitendur að veita neytendum upplýsingar um heildarkostnað lána í auglýsingum sínum og kynningarefni, sem og úrskurðar- og réttarúrræði ef upp komi ágreiningur.

Samtökin sendu inn kvörtun til Neytendastofu síðla árs 2016 þess efnis að misbrestur væri á því svokölluð árleg hlutfallstala kostnaðar væri birt hjá Brú Lífeyrissjóði en þau segja í fréttatilkynningu sjóðinn fjarri því vera einsdæmi heldur hunsi fjármálafyrirtæki lög um neytendalán og upplýsingaskyldu lánveitenda.

Á vef Neytendastofu segir að brotið sé gegn lögum með því að tilgreina ekki fyrrnefnda hlutfallstölu kostnaðar eða þá heildarfjárhæð sem neytandi þarf að greiða og fjárhæð afborgana, ásamt lýsandi dæmi.

Segja ekki ljóst hvort úrbæturnar séu fullnægjandi

„Háttsemin var einnig talin fela í sér villandi viðskiptahætti þar sem Brú lífeyrissjóður lét hjá líða að greina frá upplýsingum sem almennt skipta máli fyrir neytendur,“ segir á vef stofnunarinnar. „Ennfremur var Brú lífeyrissjóður talinn hafa brotið gegn lögum með því að hafa ekki aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís milli sjóðsins og neytenda um neytendalán.“

Í tilkynningunni segir að Hagsmunasamtökin hafi bent á að upplýsingar um réttarúrræði yrðu að liggja fyrir strax frá upphafi þegar neytandi tekur ákvörðun um að stofna til viðskipta, og ekki væri viðunandi að treysta á að lánveitandi veiti upplýsingar um það eftir að ágreiningur væri á annað borð kominn upp.

Brú Lífeyrissjóður taldi sig hins vegar fylgja lögunum og að úrbætur hafi verið gerðar á upplýsingagjöf sjóðsins í kjölfar gildistöku nýrra laga um fasteignalán. Hagsmunasamtökin telja þó ekki ljóst hvort úrbæturnar séu fullnægjandi og ætla að skoða málið áfram.