Forsvarsmenn Alvogen vísa á bug fréttum um að fjárfestingarsjóðurinn CVC Capital Partners sé að selja hlut sinn í lyfjafyrirtækinu. Ennfremur standi sjóðurinn fast á bak við fjárfestingu sína í Alvogen og Alvotech.

Er þar vísað í frétt Markaðarins sem birtist í morgun en blaðið sagðist hafa heimildir fyrir því að CVC, sem er jafnframt stærsti hluthafi Alvogen, væri í viðræðum um sölu á öllum eignarhlut sínum í lyfjafyrirtækinu.

Fjárfestingarsjóðirnir CVC Capital Partners og Temasek leiddu hóp fjárfesta sem keyptu 69% hlut í fyrirtækinu árið 2015. Kaupverðið var ekki gefið upp á sínum tíma en heildarvirði lyfjafyrirtækisins var þá metið á rúmlega tvo milljarða dala og hlutaféð á 1,1 milljarð dala. Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvogen, er á meðal stærstu hluthafa lyfjafyrirtækisins í gegnum fjárfestingarfélagið Aztiq Pharma sem á um 30 prósenta hlut.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að lánshæfisfyrirtækið Moody‘s breytti horfum Alvogen Pharma US úr „stöðugum“ í „neikvæðar“. Ástæðan fyrir breytta matinu voru sagðar auknar líkur að lyfjafyrirtækið næði ekki að halda skuldum undir fimmföldum EBITDA-hagnaði. Þá kom fram að tafir hafi orðið á sendingum í lykilsamningum ásamt því að lengri tíma hafi tekið að fá leyfi fyrir lykilvörum. Hreinar skuldir Alvogen nema í dag um 1,2 milljarða dala, samkvæmt Markaðnum, en það er nærri sex sinnum EBITDA. Tekjur Alvogen námu 484 milljónum dala á síðasta fjárhagstímabili sem lauk í september. Félagið átti um 113 milljónir dala í lok tímabilsins.

Systurfyrirtækið Alvotech stefnir á skráningu Hong Kong kauphöllina síðar á árinu í. Líftæknifyrirtækið vinnur að því að ljúka hlutafjárfjármögnun upp á ríflega 30 milljarða dala til að styðja við reksturinn fram að útboðinu. Alvotech kláraði 65 milljóna dala hlutafjáraukningu síðastliðið haust en að henni komu fjárfestar úr lyfjageiranum í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.