Staðgengill forstjóra Fjármálaeftirlitsins tók við daglegri stjórn eftirlitsins eftir að gengið hafði verið frá starfslokum við fyrrverandi forstjóra þess.

Því varð dagleg starfsemi eftirlitsins ekki fyrir skaða vegna starfslokanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu sem send var út í dag vegna ummæla Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands um stjórn Fjármálaeftirlitsins, í bréfi sínu til forsætisráðherra 8. febrúar 2009.

Í bréfin sagði Davíð að Fjármálaeftirlitið hefði verið skilið eftir stjórnlaust þegar fyrrverandi viðskiptaráðherra sagði af sér embætti.

„Þá er rétt að taka fram að viðskiptaráðherra skipaði nýja stjórn Fjármálaeftirlitsins þann 5. febrúar sl. Samkvæmt upplýsingum frá eftirlitinu urðu ekki tafir á afgreiðslu mála vegna þessa,“ segir jafnframt í tilkynningu ráðuneytisins.