Ekki er tilefni til að breyta fyrirliggjandi ákvörðun um að byggja nýjan spítala við Hringbraut, að því er segir í skýrslu sem KPMG vann fyrir Nýjan Landspítala ohf. Hlutverk KPMG var að yfirfara fyrirliggjandi gögn um hagkvæmni og staðarval Nýs Landspítala Háskólasjúkrahúss (NLSH) og skrifa samantekt um helstu niðurstöður.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að núvirtur byggingarkostnaður reiknist 21 milljarði króna hærri á nýjum stað en við Hringbraut. Fasteignir Landspítalans við Hringbraut þyrftu því að seljast á því verði til að kostirnir tveir teljist jafn kostnaðarsamir. Hins vegar var núvirði aukins rekstrarhagræðis, ef byggt yrði á nýjum stað frá grunni, tæplega 3 milljarðar króna að teknu tilliti til kostnaðar vegna truflunar á rekstri vegna framkvæmda á Hringbrautarlóð.

Hringbraut og Sævarhöfði virðast, samkvæmt skýrslunni, vera bestu kostirnir með tilliti til dreifingar notenda og starfsfólks og því kostnað við fólksflutninga.